Ef veiðiáhugi er fyrir hendi er stutt að fara í bæði Hlíðarvatn og Hítarvatn og einnig er hægt að fara í vatnasvæði við Lýsu. Gæsaveiði getur orðið talsverð ef menn eru snemma að tryggja sér veiðilönd. Menn hér í sveitum og í næstu sveitum hafa á síðustu árum sáð korni sem gæsirnar koma í og hafa menn verið að leigja þessa akra út (fyrstir koma fyrstir fá).Það má segja að Snorrastaðir séu nafli alheimsins því í næsta nágrenni er allt sem menn eru að leita að þegar menn ferðast um landið. Við höfum Snæfellsjökul í beinni sjónlínu og aðeins ca. 1 klst. akstur að honum, þá höfum við hér á hlaðinu einn fallegasta eldgýg sem fyrir finnst, en það er Eldborgin sem er himnesk perla, menn eru ca. 40 mínútur að ganga upp á hana, einnig eru hér fjöll allt í kringum okkur sem eru há og tignarleg. Gerðuberg sem er mjög fallegt stuðlaberg er stutt frá okkur og inni í Hnappadalnum eru Gullborgarhellar. Síðan eru það Löngufjörurnar sem eru landsfrægar fyrir sérstöðu sína, sjórinn fellur langt út og hægt að fara ríðandi um þær í allar áttir. Það er stutt í alla þjónustu, verslun er í Borgarnesi (38 km ) verslun er á Vegamótum (29 km), örlítið lengra er í Stykkishólm. Sundlaugar eru bæði í Borgarnesi og í Stykkishólmi sem og mjög góðir golfvellir, einnig er gólfvöllur við Langholt (53 km) Hvalaskoðun er bæði frá Stykkishólmi og Ólafsvík (sama fyrirtækið). |