Á Snorrastöðum er rekin fjölbreytt ferðaþjónusta í mjög fallegu umhverfi. Ferðaþjónustan á Snorrastöðum er við þjóðveg 54 (Ólafsvíkurvegur). Við bjóðum uppá gistingu í sex herbergjum sem eru allt frá 2 manna til 5 manna í sér húsi með heitum potti. Í þessu húsi eru tveir salir, annar er fyrir 30 – 40 manns, hinn er fyrir 150 – 180 manns og er hann bara í útleigu á sumrin (1 júní – 30 sept). Þetta hús er tilvalið fyrir ættarmót og hvers konar hópa. Tjaldstæði eru við húsið og salernis- og hreinlætisaðstaða ætluð tjaldstæðum er í sama húsi með sér inngangi. Einnig eru fjögur sex manna hús með heitum potti, sjónvarpi, grilli og öllum helsta húsbúnaði. Húsunum fylgja sængur og tvær aukadýnur. Hægt er að leigja sængurföt sérstaklega.
Ef veiðiáhugi er fyrir hendi er stutt að fara í bæði Hlíðarvatn og Hítarvatn og einnig er hægt að fara í vatnasvæði við Lýsu. Gæsaveiði getur orðið talsverð ef menn eru snemma að tryggja sér veiðilönd. Menn hér í sveitum og í næstu sveitum hafa á síðustu árum sáð korni sem gæsirnar koma í og hafa menn verið að leigja þessa akra út (fyrstir koma fyrstir fá).Það má segja að Snorrastaðir séu nafli alheimsins því í næsta nágrenni er allt sem menn eru að leita að þegar menn ferðast um landið. Við höfum Snæfellsjökul í beinni sjónlínu og aðeins ca. 1 klst. akstur að honum, þá höfum við hér á hlaðinu einn fallegasta eldgýg sem fyrir finnst, en það er Eldborgin sem er himnesk perla, menn eru ca. 40 mínútur að ganga upp á hana, einnig eru hér fjöll allt í kringum okkur sem eru há og tignarleg. Gerðuberg sem er mjög fallegt stuðlaberg er stutt frá okkur og inni í Hnappadalnum eru Gullborgarhellar. Síðan eru það Löngufjörurnar sem eru landsfrægar fyrir sérstöðu sína, sjórinn fellur langt út og hægt að fara ríðandi um þær í allar áttir. Það er stutt í alla þjónustu, verslun er í Borgarnesi (38 km ) verslun er á Vegamótum (29 km), örlítið lengra er í Stykkishólm. Sundlaugar eru bæði í Borgarnesi og í Stykkishólmi sem og mjög góðir golfvellir, einnig er gólfvöllur við Langholt (53 km) Hvalaskoðun er bæði frá Stykkishólmi og Ólafsvík (sama fyrirtækið).

0 comments

XHTML: You can use these tags: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>